13.11.2007 | 15:05
Djarfhuga einkavæðing
Alþjóð er kunnugt um framúrskarandi kosti einkavæðingarinnar, hvort heldur er á sviði bankastarfsemi, póstdreifingar, samgangna, símaþjónustu, fiskveiða eða snjómoksturs og götusópunar. Þunglamalegt ráðstjórnarkerfi félagshyggjunnar hefur loks orðið að víkja fyrir snilld einstaklingsframtaksins sem með aðstoð markaðslögmálanna sér möguleg verðmæti í sérhverri þjónustu sem áður þótti sjálfsagt að væri á höndum alls konar stofnana, nefnda, ríkis eða sveitarfélaga. Nú þarf enginn lengur að standa auðmjúk/ur frammi fyrir bankastjórum, húsnæðisyfirvöldum og alls konar umboðshöfum til þess að koma þaki yfir höfuð sér eða geta keypt sér bifreið, húsvagn eða vélhjól. Nú hringja þessir aðilar heim til þín meðan þú ert að horfa á fréttirnar í sjónvarpinu eða snæða kvöldverðinn.
Hugmyndir um frekari einkavæðingu hafa að sjálfsögðu gert vart við sig og er þeim yfirleitt tekið fagnandi af þeim stjórnmálamönnum sem þjóðin kýs yfir sig á fjögurra ára fresti. Þannig hafa hugmyndir um einkavæðingu löggæslunnar í miðborg Reykjavíkur, reksturs leikskóla og annarra skóla ásamt einkavæðingu á elliheimilum verið settar fram og sumar þegar komist í gagnið.
En hér má ekki láta staðar numið, það þarf að einkavæða félagsþjónustuna, sem til dæmis starfsmannaleigur eða erlendir orkufrekir auðhringir gætu tekið að sér. Kirkjan er kjörinn vettvangur einkavæðingar og mætti þá bjóða út land undir einkarekna kirkjugarða, kapellur og kirkjur, að því tilskyldu að launa- og verðskrárleynd sé tryggð. Raunar hefur Skálholtskirkja þegar riðið á vaðið í þessu efni og hyggst starfrækja ferðamannaþjónustu á landi sínu. Þetta er þó að mínu mati ekki nógu framsýnt, réttara væri að bjóða fjárfestum og öðrum framsýnum einstaklingum að mynda Skálholt Group til þess að tryggja arðsemina og stefna að skráningu á verðbréfamörkuðum heimsins. Nafninu mætti svo síðar breyta á stjórnarfundi í eitthvað sem hljómar alþjóðlegra en Skálholt - til dæmis Toasthollow Spiritual Energy Group.
Þá ber brýna nauðsyn til þess að huga að einkavæðingu allra orkulinda, hvort heldur er á láði, legi eða í lofti, enda engin ástæða til þess að láta önnur lögmál en markaðarins stjórna slíkum hlutum. Á undanförnum vikum hafa reyndar fyrstu táknin um slíka þróun komist á nokkuð skrið með samruna REI og Geysir Green Energy. Óþarfi er að bæta við að regn og öll önnur ofankoma þarf líka að komast á einkahendur eins fljótt og auðið er.
Því ber að fagna að merkisberar fagnaðarerindis ný-frjálshyggjunnar hafa nýverið lagt drögin að einkavæðingu menningarlífsins, með samningi RÚV ohf og athafnamannsins kunna, Björgólfs Guðmundssonar, en ég spái því að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í farsælli þróun sem mun koma landi og þjóð til góða þegar fram í sækir. Ég sé fyrir mér einkavæðingu landverndar, skógræktar og húsfriðunarnefndar svo eitthvað sé nefnt, að ekki sé minnst á starfsemi sundlauga, sjúkrahúsa og hvíldarheimila, en einnig tel ég nauðsynlegt að einkavæða ljóðlist, bókmenntir og tónlist að fullu með það í huga að geta síðar einkavætt skoðanamyndun og gert allt hugmyndaflæði í landinu frjálst og óháð öðrum öflum en markaðslögmálunum.
Byggjum landið - breytum auðn í auð - sýnum meiri dirfsku í einkavæðingunni!
Um bloggið
KristjánG
Færsluflokkar
Tenglar
Kristján og Huld í Austri
Allir þeir sem nenna að lesa um okkar farir í Austurlöndum fjær eru velkomnir/ar.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll kæri.
Alltaf jákvæður
Bestu kveðjur
Maggi (Guðrún er í Dyflini)
maggi (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.