Menningarránið mikla

Norðmenn áttu sér ekki skrifmál á öndverðri 19. öld en þá var þjóðernishreyfingunni mjög að vaxa fylgi hjá frændum okkar í þvísa landi, enda Danir farnir halloka fyrir Þjóðverjum og efnahagskreppa í landinu. Góð ráð voru dýr en eins og lenska er í Noregi (og víðar) var ekki hægt að sameinast um neitt og því voru búin til tvö ritmál sem enn lifa í landinu, þótt ekki sé hægt að tala um sérlega velgengni. Annað var dönskuskotin norska, sem hlotið hefur nafnið bókmál, af því að allir helstu rithöfundar Noregs- frá Ibsen og Kielland til Hamsuns - skrifuðu á dönsku. Ritmálið var einfaldlega fært frá dönsku til mállýskunnar sem töluð er í Osló. Hitt málið var nýnorska, sem fræðimaðurinn Ivar Aasen stóð að baki, en það var samantekt sveitamáls um Vestur Noreg og innri héruð Austur Noregs. Halldór Laxness kallaði þetta tungumál "illgirnislega eftiröpun íslenskunnar" og segja sumir að hann hafi látið þau orð falla í sjónvarpsviðtali vegna þess að Ivar Eskeland, fyrrum forstjóri Norræna Hússins í Reykjavík, snaraði sumum bókum hans á nýnorsku og nóbelsskáldinu fannst hann hlunnfarinn vegna þess að svo fáir keyptu, og lásu, bækur hans.

Hvað sem því líður er nýnorskan eins konar esperanto eða volapuk, enginn talar þetta mál og það er aðeins til á bókum fræðimanna og ofstækisfullra sveitalóma. Þessi tvö tungumál, auk samísku, kvensku og finnsku, eru ærið kostnaðarsöm norsku þjóðfélagi, en ágóðinn af þessum málatilbúningi var ekki eingöngu málfræðilegur, heldur ætlaður til að skapa þjóð í landi sem hafði búið við myrkur danskrar stjórnar í 400 ár. Á þessum tíma var almennt talið að þrennt þyrfti til að geta kallast þjóð: ein tunga, eitt afmarkað land og ein samfelld og sérkennandi menning. Landið var afmarkað af Kilinum milli Noregs og Svíþjóðar, þótt deilur hafi risið um Grænland við Dani og síðar Smuguna við Íslendinga, þó ekki sé talað um gráa svæðið kringum Svalbarð þar sem Rússar deila við Norðmenn. Tungumálin urðu tvö, þó bæði séu kölluð norska, en samfelld menning og menningararfur var aftur á móti skelfilegt vandmál. Norðmenn eiga nefnilega bara fjögur hrifsi, þverhandar stór, frá 13. öld, sem sýna menningu þeirra þótt stafkirkjur og alls kyns kirkjumunir séu alls staðar. En hvar var menningararfleifðin? Hvert sótti hið norska fólk rætur sínar, ritmál og tungu? Alla vega ekki í Noregi. Þá var brugðið til þess ráðs að gera Íslendingasögurnar norskar, Snorri Sturluson (ævinlega nefndur Snorre Sturlason) varð norskur rithöfundur og Ísland var tekið inn í eyjaklasa Noregs, sem ysti útnári skerjagarðsins. Þetta er enn kennt í grunnskólum og framhaldsskólum Noregs.

Það er illt til þess að vita að bráðhuga fræðimenn 19. aldar, eins og Norðmaðurinn Magnus Olsen og Íslendingurinn Guðbrandur Vigfússon, fóru yfir sögurnar með skáldaleyfi og túlkuðu vísur og annað eftir eigin dyntum - sumt var rangt, sumt illlesanlegt en allt var skýrt -  hér er sannarlega eitthvað fyrir nútíma sagnfræðinga að fást við. Fyrir málfræðingana, sem enn standa á því föstum fótum að til hafi verið upprunalegt norrænt mál, sem sé eins konar formóðir allra norrænna mál nema finnsku, samísku og kvensku, má kannski velta því fyrir sér að íslenskan ber svo mörg sérkenni að hún hlýtur að vera af öðrum meiði en hin norðurlandamálin, þótt hún sé náttúrulega skyld þeim. Af hverju er íslenskan ein mála um að vera án óákveðins greinis? Ég skora á málfræðinga að skýra það út.

Við erum lítil þjóð og vorum undir ægivaldi Dana þegar þetta menningarrán fór fram. Er ekki kominn tími til að leiðrétta málin? Svo geta Guðbrandur Vigfússon, Sigurður Norðdal og Kristján Eldjárn bara sofið undir grænni torfu. Þeir gerðu áreiðanlega sitt besta en það er bara ekki nógu gott. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

KristjánG

Höfundur

Kristján L Guðlaugsson
Kristján L Guðlaugsson
Aldamótamaður með gikt, blaðamaður,sagnfræðingur og sínólóg með próf á lyftara. Fæddur á fyrri hluta síðustu aldar og hjarað síðan. Skáld, trúbador og meinhorn.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...p1020030
  • Leirkarlar og Huld
  • Reiðhjólaviðgerðarverkstæði
  • Hótel Saga
  • Ár svínsins eða gríssins

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband