8.6.2007 | 16:13
Jóga, Shaolín og líkamsrækt
Sumir íhuga hlutina lengi. Ég las í ónefndu blaði í dag að Jóga-meistarinn Sri Asutosh Muniji ætli að heimsækja Ísland og miðla mörlandanum af visku sinni. Titill greinarinnar var "Jógameistari heimsækir Ísland eftir 27 ára íhugun".
Ég er hlynntur góðum undirbúningi undir langar ferðir, en 27 ára íhugun til að undirbúa langferð er nokkuð langur tími að mínu mati, sérstaklega ef gætt er að því að þá væri ég kominn hátt á tíræðisaldur þegar stigið yrði um borð í Síberíulestina. Samt er ég hjartanlega sammála Muniji að vert er að íhuga málin áður en haldið er af stað og það höfum við Huld líka gert. Við höfum ekki bara sinnt andlegum burðum heldur einnig líkamlegum, sem við teljum vera nauðsynlega á langferðum eins og við ætlum í. Þannig höfum við gengið á hvert jóga-námskeiðið á fætur öðru, staðið á haus og setið í lótusstellingu og að auki höfum við kynnt okkur yfirburðatækni Shaolínmúnkanna í því skyni að geta tekist á við það sem óhjákvæmilega bíður okkar í Austurlöndum - og það getur ekki verið neitt þægilegt...
Þetta byrjaði með líkamlegum æfingum að hætti íslenskra fjallgöngumanna, gengið var með bakpoka kringum Klambratún með bakpoka fullan af steinum, að minnsta kosti hálftíma hvern dag. Slíkar æfingar þurfa allir ferðamenn að gera í amk. hálft ár áður en lagt er af stað. Við eigum eftir að bera þungar byrðar í hátt á þriðja mánuð svo ekki veitir af æfingu. Þegar bak- og magavöðvarnir voru orðnir nógu sterkir fórum við upp í landsbankadeildina og fórum að æfa þekkt evrópsk líkamsræktarkerfi eins og Mullerskerfið og æfingakerfi Charles Atlas. Samtímis fórum við á námskeið til að læra að anda rétt, enda er mannskepnan þannig úr garði gerð að hún andar ekki rétt án leiðsagnar. Námskeið í sjálfsvörn voru hluti af þessu og eins og shaólínmúnkarnir forðum breiddum við út kínverskan hrísgrjónapappír á stofugólfið kvöld eftir kvöld og æfðum okkur í að ganga hljóðlaust eins og stökkvandi tígur án þess að skilja eftir okkur spor eða rifur í pappírnum. Það varð heldur lítið úr kynlífi á þessum tíma, en við ætlum að bæta úr því í ferðinni. Nýrna- og púngspörk og hnitmiðuð högg á hálsæðar ímyndaðra andstæðinga tilheyra einnig slíkri þjálfun. Við stóðumst ekki prófið en við erum þó búin að gera okkar besta. Sennilega verðum við barin á leiðinni.
Andlega hliðin er líka mikilvæg. Að læra að brosa þegar vandamálin steðja að, beygja sig fyrir þeim sem maður hittir og vera jafnframt reiðubúinn til þess að ráðast á hann eða hana ef manni finnst ekki allt með felldu, er ómissandi hluti af aldagömlum austurlenskum vísindum.
Við eigum bara eina ósk, að íslenskir valdhafar íhugi málin í amk. 27 daga (það er ekkert tiltökumál, finnst okkur miðað við þolinmæði jóga-meistarans Sri Autosh Muniji) áður en þeir hækka stýrivextina, skeri niður stuðning við börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti og hækka ofurlaun seðlabankastjóranna svo mikið að ekki sé hægt fyrir almúgann að ferðast erlendis á næsta áratug vegna aukinna skattabyrða.
Undirbúningurinn heldur áfram, við höfum ekki komið að félagslegum, pólitískum eða listrænum hliðum málsins. Fylgist með. Við bloggum áfram.
Kristján G
Um bloggið
KristjánG
Færsluflokkar
Tenglar
Kristján og Huld í Austri
Allir þeir sem nenna að lesa um okkar farir í Austurlöndum fjær eru velkomnir/ar.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.