Fall er fararheill

Thad er nú gaman ad kaupa sér splúnkunýja MacBook fyrir 200 thúsund kall og láta skima hann burt á Leifsstöd. Kannski Finnarnir getí hjálpad mér á morgun, vid Huld tökum ferjuna í kvöld til Åbo eda Turku. Svo sjáum vid til. Hér í Stokkhólmi er sunnudagur og allt er lokad. En fall er fararheill saqmkvaemt íslenskri hjátrú, thetta gengur einhvern veginn - höldum vid alla vega. Frábaer ferd hingad til en svolítid leidinlegt ad draslast med fartölvu í bakpokanum sem ekki virkar.

Nú erum við að drífa okkur...

Það er komið að því, stóra austurlandaferðin byrjar á morgun. Við erum búin að fara í sprautur gegn alls konar lifrarsjúkdómum, steinsmugum og heilahimnubólgum, og það var ekkert ódýrt, 50 000 kall á mann að minnsta kosti. Malaríutöflur og flugnafælusprei er komið í bakpokann og íslenskar hausverkjatöflur gegn timburmönnum eru klárar. Basic. Peningamálin hafa hins vegar orðið umræðuefni undanfarna daga, ekki af því að ferðin var of dýr, en af því að maður veit ekki hvar geyma á peningana - ég meina, það er brjálæði að ferðast um allt Rússland ( minnist björgólfsfeðganna og mafíunnar) án " american bodyguards". Ef farið er með kort og dollara í sömu pyngju endar það með skelfingu. Maður verður rændur og kannski verra en það. Kannski verður maður svikinn...

Það sem eiginlega er aðalatriðið er hið svokallaða Gare-duNord-Syndrome, sem þekkt er úr kvikmyndum og bókmenntum síðari tíma. Það er óttinn við að missa ástvin sinn á opinberum stað og finna hann eða hana aldrei aftur. Vera skilin eða skilinn eftir fyrir utan einhverja járnbrautarstöð í l landi sem maður þekkir ekki, án passa, peninga og alls annars.. það er horror. Þetta kemur Kína sérstaklega við af því að við erum að fara til Kunming og þar er Gare-de-Sud - og þar eru málin ennþá verri.

Munið að hafa með ykkur áttavita, vasaljós, skauta, sjónvörp og bjórdósir...

Munið bara að Íslendingar eru alls staðar velkomnir 


Miðarnir komnir - vegabréfin klár

Þið skuluð ekki ímynda ykkur að ferðaskrifstofur séu bara að hirða af okkur money (þó þær taki auðvitað þóknun í ríflegum mæli fyrir þjónustu sína). Þær eru bara prófesjónal á sínu sviði og bregðast sjaldan. Reyniði að afla ykkur allra upplýsinga, nauðsynlegrar þekkingar á lestar-, skipa-, flug- og rútuferðum um ókunnar slóðir, vegabréfsáritanir, heimboð og allt hitt sem þarf til að fara í austurveg. Einfaldasta málið er að hafa samband við reynda ferðamálasérfræðinga og láta þau sjá um málin. En það er samt gaman að fást við þetta sjálf. Það er eiginlega mest gaman.

Þær stöllur Yulia Strelnikova í Heilagri Pétursborg og gjaldkerinn Lubya Sofya í Moskvuborg eru búnar að redda miðunum fyrir okkur og auðvitað hefur starfslið Glitnis verið ómissandi í þessu ferli.

Það eru samt atriði sem vert er að gefa gaum að áður en maður reynir að skipuleggja eigin ferð á eigin vegum:

1. Til Rússlands þarf maður boðsbréf (kallað voucher eða invitation), en starfsmenn sendiráðsins uppi á Túngötu hjálpa og leiðbeina. Frábært fólk. Við völdum ferðaskrifstofu af handahófi og lentum á Nordic Travel í Pétursborg. Ef þið ætlið að fylla út umsókn um vegabréfsáritun til landsins með stóra bjarnarhjartað er best að hlusta vel á starfsmenn sendiráðsins - þau vita hvað þarf og hvað ekki þarf.  Munið bara að Rússland er í mörgum, mörgum öðrum tímabeltum en við og það þarf að huga að lókaltíma þegar miðar eru pantaðir og sótt um vegabréfsáritanir. Rússland er heldur ekki  Tryggingastofnunin þar sem frænka þín vinnur. Verðið er 3000 kall á mann, ódýrt ef maður hugsar um hvað bjórinn kostar hérlendis. Svo ekki sé minnst á greiðslur skattborgaranna til alls konar seðlabankastjóra, skattsvindlara og þingfarakaupsellilífeyrisþega.

2.  Kína er með sendiráð á Íslandi. Gætið bara að því að nýverið gengu  í gildi ný eyðublöð fyrir vegabréfsáritanir - þær gömlu geta bara farið í ruslið. Svo er hitt, og þetta er mikilvægt, að vegabréfsáritunin til þriggja mánaða byrjar að renna út daginn sem þú nærð í passann. Við fengum vegabréfsáritun 9. maí og þurfum þess vegna að vera komin út úr Kína 9. ágúst eða framlengja vegabréfsáritunina að öðrum kosti. Og það kostar nokkra dollara. Hins ber líka að gæta að ef sótt er um "single entry" getur maður ekki heimsótt Macau án þess að kaupa nýja áritun (sem bara gildir í fáeina daga...). Höldum að Hong Kong sé öðru vísi, en það kemur í ljór. Biðjið þess vegna um "multiple entry" og þá eruð þið á grænni grein. Annars var starfsfólk kínverska sendiráðsins elskulegt og relaxed. Ekker út á það að setja.

3. Mongólía er ekki með sendiráð á Norðurlöndum svo okkur sé kunnugt um, en sendiráð þeirra í London er áreiðanlegt og fljótvirkt. Haliði bara niður visumumsókn á netinu (sláið upp ámongolian embassies og þið finnið London) fyllið hana rétt út, sendið passamyndir og ávísun í pundum og allt fer vel. Opinberlega þarf maður boðsbréf eða "voucher" til Mongólíu en það er tiltölulega einfalt að finna ferðaskrifstofur, hótel og backpackerstaði sem redda því. Muniði bara að borga ekki nema sem svarar tíu hundraðshlutum af heildarverðinu.

4. Ef passarnir rata heim aftur og eru með réttar vegabréfsáritanir er mikilvægt að hafa ljósrit af þeim síðum sem skipta máli. Sé maður rændur (og komist ekki upp með amatörrússnesku) er gott að hafa ljósrit af passanum, það auðveldar öll mál. Það sama gildir náttúrulega um kredittkort og debittkort og landakort, en þegar að því kemur er mikilvægast að hafa símanúmerið til VISA eða MASTER CARD, American express eða annarrakortaútgefanda. Eins er gott að hafa ljósrit af öllum virkjunarframkvæmdum á Íslandi, flöttum þorski og Davíði Oddsyni.

5. Ef þið skylduð ætla lengra suður en til Beijing, Shanghai og Xian (sumir fara til Xiamen) verðiði að hugsa um vegabréfsáritanir til Víetnamog kannski Kambódíu (Laos og Burma). Þær er hægt að fá í sendiráðum þessarra ríkja í Beijing og í sumum landamærabæjum/-borgum Kína. Best er að ljúka þessu af í Beijing áður en lengra er haldið.

Og hana nú.

Góða ferð

Kristján og Huld 


Góð ráð gegn ferðahræðslu

Það er svo öruggt að búa í Norðurmýrinni, fuglasöngur á morgnana og allt fullt af köttum og mávum, en í útlöndum erum við viss um að hætturnar eru á hverju strái. Vasaþjófar, morðingjar, og þaðan af verra bíða eftir okkur saklausum túrhestum frá Íslandi. Við eigum ráð við því - nefnilega tunguna eða málið. Og svo eigum við náttúrulega þessa skynsemi sem okkur Íslendingum er í blóð borin. The do's and don'ts. Þegar farið er ytra er ávallt best að vera á varðbergi. Maður verður til dæmis að venja sig af því að heilsa fólki með handabandi, tálga frá sér og setja skóna upp á borð. Á hinn bóginn verður maður að venja sig á að sötra súpu og borða með prjónum.

Nokkur góð ráð ef eitthvað bregður út af: Khnchisnkyu knatshfduyr = otaðu hnífnum að einhverjum öðrum. Klhguyfirnsky orgafstisyky = þú ert með höndina í vitlausum vasa. Njet = nei, takk. Da = Jæja.

Það er kannski best að vera heima. Það veit enginn hvar þú ert hvort sem er, maður getur alveg bloggað frá Norðurmýrinni og látið sem maður sé í Mongólíu...

Við Huld ætlum nú að fara samt. Það eru ábyggilega kettir og mávar þarna austurfrá.

 


Stund efans

Miðarnir með Síberíulestinni eru ekki komnir ennþá. Kannski verður ekkert úr ferðalaginu. Yulia Strelnikova hjá ferðaskrifstofunni í St. Pétursborg segist hafa bókað miða fyrir okkur, en það einasta sem ég veit er að við fáum far frá Helsinki til Moskvu. Allt er í óvissu, kannski er allur undirbúningurinn til einskis.

Og hvað ef við fáum ekki vegabréfsáritun til Víetnam og Kambódíu? Þá verður gaman að tala við kínverska landamærverði á mellufærri kínversku...

Hvað ef þetta blogg er til einskis? Er einhverjum sama? 


Jóga, Shaolín og líkamsrækt

Sumir íhuga hlutina lengi. Ég las í ónefndu blaði í dag að Jóga-meistarinn Sri Asutosh Muniji ætli að heimsækja Ísland og miðla mörlandanum af visku sinni. Titill greinarinnar var "Jógameistari heimsækir Ísland eftir 27 ára íhugun".

Ég er hlynntur góðum undirbúningi undir langar ferðir, en 27 ára íhugun til að undirbúa langferð er nokkuð langur tími að mínu mati, sérstaklega ef gætt er að því að þá væri ég kominn hátt á tíræðisaldur þegar stigið yrði um borð í Síberíulestina. Samt er ég hjartanlega sammála Muniji að vert er að íhuga málin áður en haldið er af stað og það höfum við Huld líka gert. Við höfum ekki bara sinnt andlegum burðum heldur einnig líkamlegum, sem við teljum vera nauðsynlega á langferðum eins og við ætlum í. Þannig höfum við gengið á hvert jóga-námskeiðið á fætur öðru, staðið á haus og setið í lótusstellingu og að auki höfum við kynnt okkur yfirburðatækni Shaolínmúnkanna í því skyni að geta tekist á við það sem óhjákvæmilega bíður okkar í Austurlöndum - og það getur ekki verið neitt þægilegt...

Þetta byrjaði með líkamlegum æfingum að hætti íslenskra fjallgöngumanna, gengið var með bakpoka kringum Klambratún með bakpoka fullan af steinum, að minnsta kosti hálftíma hvern dag. Slíkar æfingar þurfa allir ferðamenn að gera í amk. hálft ár áður en lagt er af stað. Við eigum eftir að bera þungar byrðar í hátt á þriðja mánuð svo ekki veitir af æfingu. Þegar bak- og magavöðvarnir voru orðnir nógu sterkir fórum við upp í landsbankadeildina og fórum að æfa þekkt evrópsk líkamsræktarkerfi eins og Mullerskerfið og æfingakerfi Charles Atlas. Samtímis fórum við á námskeið til að læra að anda rétt, enda er mannskepnan þannig úr garði gerð að hún andar ekki rétt án leiðsagnar. Námskeið í sjálfsvörn voru hluti af þessu og eins og shaólínmúnkarnir forðum breiddum við út kínverskan hrísgrjónapappír á stofugólfið kvöld eftir kvöld og æfðum okkur í að ganga hljóðlaust eins og stökkvandi tígur án þess að skilja eftir okkur spor eða rifur í pappírnum. Það varð heldur lítið úr kynlífi á þessum tíma, en við ætlum að bæta úr því í ferðinni. Nýrna- og púngspörk og hnitmiðuð högg á hálsæðar ímyndaðra andstæðinga tilheyra einnig slíkri þjálfun. Við stóðumst ekki prófið en við erum þó búin að gera okkar besta. Sennilega verðum við barin á leiðinni.

Andlega hliðin er líka mikilvæg. Að læra að brosa þegar vandamálin steðja að, beygja sig fyrir þeim sem maður hittir og vera jafnframt reiðubúinn til þess að ráðast á hann eða hana ef manni finnst ekki allt með felldu, er ómissandi hluti af aldagömlum austurlenskum vísindum.

Við eigum bara eina ósk, að íslenskir valdhafar íhugi málin í amk. 27 daga (það er ekkert tiltökumál, finnst okkur miðað við þolinmæði jóga-meistarans Sri Autosh Muniji) áður en þeir hækka stýrivextina, skeri niður stuðning við börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti og hækka ofurlaun seðlabankastjóranna svo mikið að ekki sé hægt fyrir almúgann að ferðast erlendis á næsta áratug vegna aukinna skattabyrða.

Undirbúningurinn heldur áfram, við höfum ekki komið að félagslegum, pólitískum eða listrænum hliðum málsins. Fylgist með. Við bloggum áfram.

Kristján G 


Í fótspor ráðherrans

Las einhvers staðar að Jónina Bjartmarz ætli að flytja til Kína og fara að læra kínversku. Hugrökk kona. Kannski er auðveldara að safna atkvæðum þar, Kínverjar eru svo margir að það hljóta einhverjir að aðhyllast landbúnaðarstefnu Framsóknarfokksins meðal þeirra 1300 milljóna sem búa í Ríkinu í miðjunni. Á hinn bóginn getur orðið erfitt að skýra hana út á kínversku þegar meirihluti Íslendinga á erfitt með að skilja hana til hlítar, hvað þá kyngja henni...
Samt er gott að vita til þess að lúnir íslenskir ferðamenn, sem hafa þvælst með Síberíulestinni sólarhringum saman, eigi hauk í horni í þessu víðlenda og fjölmenna ríki. Sé að ég verð að taka þessa staðreynd með í ferðaundirbúninginn, vona bara að okkur verði tekið jafnvel eftir sem áður. Hver veit nema Jón Sigurðsson flytji til Mongólíu til að aðstoða eftirkomendur Chingiz Khaan með stóriðnvæðinguna sem ku vera á mikilli siglingu þar í landi um þessar mundir. Þá vantar bara að Guðni Ágústsson taki að sér yak-pólitíkina á hrísgrjónasvæðum Suðaustur Asíu. Obobob - útrás Íslendinga á sér engin takmörk.

Ferð í sýndarheimum

Gamalt  máltæki segir að allar ferðir séu farnar tvisvar, fyrst í huganum og svo í reyndinni og alls ekki er víst að þessar tvær ferðir verði nákvæmlega eins. Þó er gott að skipuleggja ferðina eins og kostur er og þá er netið ágætt hjálpargagn. Það þarf ekki að vafra lengi í sýndarheimum veraldarvefsins til þess að finna alls konar upplýsingar um fyrirhugað ferðalag. Hins vegar er óvíst að allt sem birt er á netinu sé jafn nytsamlegt og sumt er beinlínis rangt, enda enginn ábyrgur fyrir því sem lagt er út á netið. Opinberar vefsíður, eins og til dæmis upplýsingasíður borga og bæja, járnbrauta-, ferju- og rútufyrirtækja, eru venjulega gagnlegar og trúverðugar. Ein þeirra er www.bahn.de sem er mjög áreiðanleg vefsíða og einföld í notkun. Þar er líka að finna ýmsa tengla sem nota má í leitinni að upplýsingum. Að kaupa miða og gistingu eða ferðir á netinu getur hins vegar reynst erfiðara og einföld þumalputtaregla er að borga aldrei heildarupphæð fyrir hótelgistingu eða annað sem maður kaupir. Venjulega eru 10 prósent heildarupphæðarinnar það sem krafist er og afganginn greiðir maður svo þegar komið er á staðinn.

Til að kynna sér menningu, sögu, staðhætti og þjóðlíf framandi staða getur netið einnig verið mjög nytsamlegt, en þar er oft að finna bloggsíður þar sem ferðamenn segja frá reynslu sinni, auk upplýsinga úr uppflettiritum eða frá áreiðanlegum ferðabókaútgefendum eins og Lonely Planet eða Thomas Cook. Að sjálfsögðu er einnig hægt að fá lánaðar eða keyptar ferðahandbækur sem oftast innihalda bæði gagnlegar upplýsingar og frásagnir af þjóðlífi og sögu viðkomandi landa. Lonely Planet-bækurnar eru handhægar og yfirleitt áreiðanlegar þó ég hafi orðið fyrir þeirri reynslu einu sinni í Istanbul að hótel sem mælt var með í bók um Tyrkland hafi reynst vera argasta hórubæli þar sem hvorki var hægt að læsa hurðinni á hótelherberginu né sofa vegna hávaða og drykkjuláta. Fyrir þá sem ætla að fara með Sírberíulestinni má benda á Trans Siberian Handbook, útgefna af Trailblazer. Inside-bækurnar og Insight-bækurnar um hin ýmsu lönd eru líka mjög góðar.

Besta reglan er að kynna sér málin eins rækilega og hægt er áður en haldið er af stað. Þegar maður er einn á ferð og mállaus í landi eins og Kína er maður í rauninni ólæs líka. Til dæmis er ágætt að hafa kynnt sér táknin fyrir orðin "maður" og "kona" til þess að geta gert greinarmun á salernunum... sömuleiðis er nauðsynlegt að vita hvort rafmagn sé 220 V, hvernig tenglar séu notaðir og þannig mætti lengi telja. Það er annað en gaman að burðast með fartölvu, rakvél, hárþurrkara eða önnur raftæki sem ekkert er hægt að nota.


20 000 km lestarferð

Ég er að fara í rúmlega 20 000 km lestarferð með sambýliskonu minni, Sigríði Huld Sveinsdóttur, þann 21. júní og getur nærri að slík ferð þarfnist dálítils undirbúnings. Þetta er ekki ferð sem er í boði neinnar ferðaskrifstofu og hún er heldur ekki skipulögð af neinum öðrum en okkur sjálfum. Slíkar "backpacker"- eða bakpokaferðir eru nefnilega í eðli sínu lauslega skipulagðar, en þó eru vissir hlutir sem verður að skipuleggja í smáatriðum. Þegar maður nálgast sextugt hefur maður kannski líka meiri þörf fyrir að hafa vaðið fyrir neðan sig en á yngri dögum.

Ferðin liggur frá Umferðamiðstöðinni í Reykjavík til Oslóborgar, en þaðan er farið með lest til Stockhólms, skipi til Turku í Finnlandi og svo með lest til Helsinki, þar sem miðarnir með Síberíulestinni eru sóttir. Svo förum við með "Tolstoj", en svo heitir næturlestin sem gengur milli Helsinki og Moskvu, til Oktoberskaya-stöðvar í höfuðborg Rússa en þar hefst hin eiginlega Síberíulestarferð. Síberíulestin fer frá Lavroskaya-stöðinni og fimm dögum síðar er komið til Ulan Bataar í Mongólíu. Eftir nokkurra daga stopp höldum við svo áfram til Beijing í Kína. Þar líkur hinum skipulagða hluta ferðarinnar en í grófum dráttum ætlum við frá Beijing til hinnar fornu keisaraborgar Xian og síðan til Sichuan, þar sem við heimsækjum borgirnar Chengdu og Chongqing og næsta nágrenni þeirra. Raunar er aðaltilgangurinn með heimsókn til síðarnefndu borgarinnar að taka skip niður Yangzi-fljótið niður að stíflunni miklu, Þriggja-gljúfra-stíflu - sem verið er að leggja síðustu hönd á. Þaðan höldum við svo áfram með lest til Shanghai og síðan til Guangzhou, Hong Kong og Macau. Þar næst förum við til Kunming í Yunnanhéraði og skoðum nokkrar náttúruperlur og bæi minnihlutafólks sem þar býr. Eftir það liggur leiðin til Nanning og þaðan til Hanoi í Víetnam og svo heldur ferðin áfram til keisaraborgarinnar Hué og þar næst Sægon, eða Ho Chi Minh-borgar eins og hún heitir opinberlega nú. Frá Sægon munum við svo taka fljótabát á Mekongfljóti til Phnom Pehn í Kambódíu, en þar verða einnig heimsóttar rústir Angkor Wat-hallar og borgin Siem Reap. Að lokum liggur leiðin svo til Bangkok í Tælandi og borgarinnar Chiang Mai. Við ætlum okkur 70 daga til ferðarinnar, en ekki 80 eins og Phileas Fogg, enda fór hann umhverfis jörðina á þeim tíma. Hvernig við komum okkur heim er óráðið, en það verður ekki með járnbrautarlest.

Svona langt ferðalag þarf að skipuleggja, þótt auðvitað verði komið víðar við en á þeim stöðum sem nefndir hafa verið. Þess vegna byrjuðum við að undirbúa ferðina fyrir hálfu ári síðan og sjáum núna að ekki veitti af þeim tíma. það er nefnilega í mörg horn að líta og mörgu sem þarf að huga að áður en haldið er af stað. Útvega þarf vegabréfsáritanir og farmiða, fá sprautur, og skaffa nauðsynlegan útbúnað, sums staðar þarf að panta hótel og svo þarf maður að hafa góðar ferðabækur með sér og kynna sér rækilega menningu, sögu og hætti þeirra landa, þjóða og þjóðarbrota sem heimsækja á.

Við komum að praktískum hliðum undirbúningsins í bloggum næstu daga.

KristjánG 


Austrið var rautt

Þegar starfsmenn, stúdentar, skólabörn og eldir borgarar voru vaktir upp klukkan hálf sex á morgnana með háværum gjallarhornum til þess að taka þátt í skipulagðri hernaðarmorgunleikfimi alþýðulýðveldisins Kína á níunda áratug síðustu aldar, sá ég alltaf fyrir mér sundsprett Maó formanns í Fljótinu langa, eða Jangtsekijang, eins og það var iðulega kallað í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. á þeim árum. Reyndar nennti ég aldrei að taka þátt í þessarri sérkínversku húsmæðraleikfimi, en verð að viðurkenna að þetta voru erfiðir og svefnlausir morgnar. Ég hef samt alltaf ætlað mér að sigla um gljúfrin þrjú í þessu langa fljóti en ég held að ég láti ógert að sanna sundkunnáttu Íslendinga við það tækifæri. Sest heldur á þilfar fljótabátsins með kaldan bjór og velti fyrir mér hvernig hægt er að flytja nærfellt tvær milljónir manna (og enga heiðagæs) frá æskuheimilum sínum, í þágu rafmagnsins og hins nýja tíma.

Ég er sem sagt á leiðinni til Asíu - einkum Kína - og þaðan er ætlunin að senda jafnaðarlega blogg til þessarrar frábæru bloggsíðu og segja frá því sem fyrir augu, eyru og annarra líffæra ber á leiðinni. Ég er reyndar vel tryggður hjá Sjóvá, en þetta blogg er aukatrygging. Mottóið er "worst case" - en engir Íslendingar (nema kannski Vestmannaeyingar) trúa neinu öðru en að málin reddist. Af stjórnmálamönnum og -konum þess lands hef ég lært, að á öllum dísent bloggsíðum verði að mobba einhvern og þá finnst mér eiginlega Vestamannaeyingar liggja best við höggi - eða bloggi.

En hvernig fer maður einn síns liðs (þó að við séum reyndar tvö) frá Reykjavík til Bangkok með lest? Og þaðan til baka. Um það ætla ég að blogga og um allt sem verður á okkar löngu leið.

Austrið var rautt - hvernig er það núna?

KristjánG 


« Fyrri síða

Um bloggið

KristjánG

Höfundur

Kristján L Guðlaugsson
Kristján L Guðlaugsson
Aldamótamaður með gikt, blaðamaður,sagnfræðingur og sínólóg með próf á lyftara. Fæddur á fyrri hluta síðustu aldar og hjarað síðan. Skáld, trúbador og meinhorn.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...p1020030
  • Leirkarlar og Huld
  • Reiðhjólaviðgerðarverkstæði
  • Hótel Saga
  • Ár svínsins eða gríssins

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband