Ólafur F: Hlíðin er svo fögur...

Eitthvað það ósmekklegasta sem ég hef séð í íslenskum stjórnmálum er aðförin að Ólafi F. enda leyna vonbrigði kratanna sér ekki eftir að þeir misstu "meirihlutann" í borginni. Minni á að meirihlutinn byggðist á varamanni Ólafs og von Samfylkingarmanna um að hann væri úr leik. Það sæmir ekki fólki sem starfar saman á hverjum degi að bera út óhróður um þá sem þeim ekki líkar. Málefnaumræða er alltaf best. Það er kannski tímanna tákn að sömu kratar skríða í bólið með sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og taka ótrauðir upp afstöðu og starfsaðferðir sjálfstæðismanna við embættisveitingar, bruðl á alþjóðavettvangi og linku gagnvart vafasömum íslenskum fjármálaheimi. En ég held að Össur og Ingibjörg Sólrún verði aldrei eins auðug og þau halda að verði.

Manni verður  á að hugsa um Ólaf F. blessaðan að hann hafi hugsað eins og Gunnar forðum: Hlíðin er svo fögur að ég fer ekki rassgat. Nú er bara að huga að boganum maður.

Að fólk brygðist við framkomu sumra sjálfstæðismanna og létu heldur henda sér út úr Ráðhúsinu en að þegja og nöldra við eldhúsborðið finnst mér hins vegar frábært. Við getum lært af Frökkum í því efni, kjörnir fulltrúar fólksins eru ekki annað en kjörnir fulltrúar fólksins og þeim ber að hlusta á rödd fólksins.  OK, Ólafur F. er ekki vinsæll, en fyrirrennari hans (með eða án hárkollu) skeit í heyið svo um munaði með aðstoð "fatamódels" hrútaflokksins, Birnir Inga, en svo virðist sem sumum kjörnum fulltrúum fólksins sé nákvæmlega sama hverjir gagnrýna þá, hver gagnrýnin sé og hvers vegna þeir séu sakfelldir af almannarómi. Það er eins og að skvetta vatni á gæs. Þeim kemur það næstum ekki við. Viljugi Villi er náttúrulega einn af þeim, hann minnir mig á fremur lousy blöndu af John Wain og Mother Theresu. Megi honum farnast vel.

ageir Haarde 

Alla vega er augljóst að þessi 70-30% meirihluti eins flokkslauss manns og stærsta flokksins í borginni er dæmdur til að lenda í einverju veseni. Kratarnir hafa ekki hugmyndaflug til þess, VG eru og þröngsýnir (gleymum Framsókn í Vinnufataversluninni) og þá er bara einn möguleiki eftir. Geir (sem ber náttúrulega norskt/danskt nafn eins og flestir af valdamönnum Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og kratanna) og kompaní sjá bara um það sjálfir. En ekki vegna ofsókna eða flughræðslu, heldur vegna lélegrar pólitíkur.

Megi veturinn blessa ykkur

Kristján G 

 

 


Tíu heilræði fyrir Geir

"Verndum kapítalismann" er yfirskrift tíu heilræða sem "Félag áhugamanna um kjör fátækra" og fulltrúar  "Stefnumótunarfélags hinnar einhuga mormónakirkju" ætla að afhenda Geir H. Haarde - við tækifæri. Að sögn fjölmiðla verða þetta býsna góð heilræði, enda er þeirra full þörf, þar sem Geir er oddviti íslenskra stjórnmálamanna og hefur ærinn starfa að halda í eyrun á þeim.

Hin býsna góðu heilræði eru sem hér segir:

1. Þú skalt ekki kjósa aðra (en okkur í klíkunni).

2. Þú skalt halda að þér höndunum varðandi íbúðakaup.

3. Þú skalt ekki svíkja vini þína jafnvel þótt þeir séu í stjórn REI eða GGE.

4. Þú skalt ekki stela nema þegar færi gefst.

5. Þú skalt ekki ágirnast eigur nágranna þíns nema þú sérst búinn að stofna ehf.

6. Þú skalt ekki ágirnast konu eða önnur húsdýr nágranna þíns nema ef í nauðirnar rekur.

7. Þú skalt heiðra útrásina, bankana, íslenska tungu, Bandaríkin og Sjálfstæðisflokkinn.

8. Þú skalt ekki fremja hór nema gluggatjöldin séu dregin fyrir.

9. Þú skalt ekki brjóta gegn býsna góðum heilræðum nema þau komi frá öðrum en mér.

10. Þú skalt aldrei segja aldrei ef von er um gróða.

Okkur langar til að bæta ellefta heilræðinu við en við óttumst að það kynni að leiða þjóðina út á villigötur og fá hana til að hætta að níðlesa Biflíuna og Tíu litla negrastráka (hvað yrði um slíka þjóð?), svo við sleppum því. Málið verður hins vegar sett í nefnd ofangreindra aðila og tekin heildstæð afstaða til þess hvað skuli gera. Á meðan treystum við Geir til að fylgja býsna góðum heilræðum okkar.


Djarfhuga einkavæðing

Alþjóð er kunnugt um framúrskarandi kosti einkavæðingarinnar, hvort heldur er á sviði bankastarfsemi, póstdreifingar, samgangna, símaþjónustu, fiskveiða eða snjómoksturs og götusópunar. Þunglamalegt ráðstjórnarkerfi félagshyggjunnar hefur loks orðið að víkja fyrir snilld einstaklingsframtaksins sem með aðstoð markaðslögmálanna sér möguleg verðmæti í sérhverri þjónustu sem áður þótti sjálfsagt að væri á höndum alls konar stofnana, nefnda, ríkis eða sveitarfélaga. Nú þarf enginn lengur að standa auðmjúk/ur frammi fyrir bankastjórum, húsnæðisyfirvöldum og alls konar umboðshöfum til þess að koma þaki yfir höfuð sér eða geta keypt sér bifreið, húsvagn eða vélhjól. Nú hringja þessir aðilar heim til þín meðan þú ert að horfa á fréttirnar í sjónvarpinu eða snæða kvöldverðinn.

Hugmyndir um frekari einkavæðingu hafa að sjálfsögðu gert vart við sig og er þeim yfirleitt tekið fagnandi af þeim stjórnmálamönnum sem þjóðin kýs yfir sig á fjögurra ára fresti. Þannig hafa hugmyndir um einkavæðingu löggæslunnar í miðborg Reykjavíkur, reksturs leikskóla og annarra skóla ásamt einkavæðingu á elliheimilum verið settar fram og sumar þegar komist í gagnið.

En hér má ekki láta staðar numið, það þarf að einkavæða félagsþjónustuna, sem til dæmis starfsmannaleigur eða erlendir orkufrekir auðhringir gætu tekið að sér. Kirkjan er kjörinn vettvangur einkavæðingar og mætti þá bjóða út land undir einkarekna kirkjugarða, kapellur og kirkjur, að því tilskyldu að launa- og verðskrárleynd sé tryggð. Raunar hefur Skálholtskirkja þegar riðið á vaðið í þessu efni og hyggst starfrækja ferðamannaþjónustu á landi sínu. Þetta er þó að mínu mati ekki nógu framsýnt, réttara væri að bjóða fjárfestum og öðrum framsýnum einstaklingum að mynda Skálholt Group til þess að tryggja arðsemina og stefna að skráningu á verðbréfamörkuðum heimsins. Nafninu mætti svo síðar breyta á stjórnarfundi í eitthvað sem hljómar alþjóðlegra en Skálholt - til dæmis Toasthollow Spiritual Energy Group.

Þá ber brýna nauðsyn til þess að huga að einkavæðingu allra orkulinda, hvort heldur er á láði, legi eða í lofti, enda engin ástæða til þess að láta önnur lögmál en markaðarins stjórna slíkum hlutum. Á undanförnum vikum hafa reyndar fyrstu táknin um slíka þróun komist á nokkuð skrið með samruna REI og Geysir Green Energy. Óþarfi er að bæta við að regn og öll önnur ofankoma þarf líka að komast á einkahendur eins fljótt og auðið er.

Því ber að fagna að merkisberar fagnaðarerindis ný-frjálshyggjunnar hafa nýverið lagt drögin að einkavæðingu menningarlífsins, með samningi RÚV ohf og athafnamannsins kunna, Björgólfs Guðmundssonar, en ég spái því að þetta sé aðeins fyrsta skrefið í farsælli þróun sem mun koma landi og þjóð til góða þegar fram í sækir. Ég sé fyrir mér einkavæðingu landverndar, skógræktar og húsfriðunarnefndar svo eitthvað sé nefnt, að ekki sé minnst á starfsemi sundlauga, sjúkrahúsa og  hvíldarheimila, en einnig tel ég nauðsynlegt að einkavæða ljóðlist, bókmenntir og tónlist að fullu með það í huga að geta síðar einkavætt skoðanamyndun og gert allt hugmyndaflæði í landinu frjálst og óháð öðrum öflum en markaðslögmálunum.

Byggjum landið - breytum auðn í auð - sýnum meiri dirfsku í einkavæðingunni!


Biflíublogg

Einu sinni hristu menn hausinn yfir því að Trotsky og Lin Piao voru klipptir út úr opinberum myndum af helstu leiðtogum austrænna kommúnistaríkja, af því að það var augljós sögufölsun. Núna keppast sömu íhaldsmennirnir um að hylla nýja og falsaða biflíuútgáfu, sem á að færa heilaga ritningu nær okkar tíma, eins og einhver blaðasnillingurinn komst að orði.
Það er talað um meiri kunnáttu, betri þekkingu og skilning á orði guðs, það er talað um nútímamenn eins og þeir séu allt í einu að skilja einhver boð að ofan, sem áður voru óskiljanleg og röng. Það er talað um sögu gyðinga eins og hún varði okkur sérstaklega og sé undirstaða íslenskrar þjóðmenningar og hversdagsins sem við mætum á frostbitnum októbermorgnum árið 2007.

Allt þetta eru sögufalsanir. Það er verið að sópa undir teppið, eða klippa út óþægilegar tilvitnanir sem lýsa hugarfari og fordómum kristinna manna, í því skyni að gera biflíuna aðgengilegri fyrir minnihluthópa eins og konur og samkynhneigða. Eru það minnihlutahópar í huga biskups, páfa og annarra hlutaðeigandi? Á að endurskoða fasistískt  og niðrandi innihald Bók bókanna til að sækja atkvæði við næstu biskupskosningar og gera biflíuna að einhverju öðru en hún er? Nei, beinum heldur hatri okkar að öðrum trúfélögum og göngumst undir herleiðangra Bandaríkjamanna gegn múslimum og öðru hryðjuverkafólki - þannig er andinn hjá íslensku intelligensíunni í dag. Svei og fuss.

Biflían er saga gyðinga og það verður að virða. En við eigum líka okkar sögu og Hildibrandur, Oddur og þeirra líkar hafa ekki gert annað en að færa þjóðina undir erlent ok og kúgun. Biflían er ekki bara saga gyðinga, hún er líka sagan um hvernig íslensk þjóð var kúguð og niðruð af erlendum aðilum og lögð í fjötra sem næstum urðu henni að bana.

Ég er ekki sammála Geir Waage og hans líkum, enda eru þeir fasistar í eðli sínu, en mér hrýs hugur við því að menntaðir og upplýstir íslendingar séu að ræða af fullri alvöru hvort segja eigi "eingetinn sonur" eða "einkasonur" guðs í einhverri bók sem tilheyrir valdastofnun sem staðið hefur fyirir nauðgunum á kórdrengjum, umþreyfingum á fermingarstúlkum og ofurvaldi gegn öllum smælingjum þessa heims. Hvað kemur það Jóni og Gunnu við? Mér er alveg sama hvernig textinn hljóðar, ég fer hvort sem er ekki í kirkju til að hlusta á guðsvælið úr barka ríkisstarfsmannanna sem standa í trúðsklæðum bak við altar lyginnar.

Ef einhver fer til andskotans þá eru það kristnar sálir. Verði þeim að góðu. Þær fundu helvíti upp.


Er orkan einkenni Íslendinga?

Íslendingar eru sérstök þjóð, allt sem gerist á þessu landi er bæði ótrúlegt og annars heims. Hér er til dæmis borgaralega lýðræðið haft að spotti fyrir opnum skjá og í beinni sendingu. Fjórtán kallar skara eld að sinni köku meðan alþjóð horfir skelfingu lostin á. Fulltrúar fólksins, Össur &co og reyndar allt krataliðið með Ingibjörgu Sólrúnu fremsta í flokki, segja að verðmætin muni vaxa. Vaxa? Hvaða verðmæti, samfylkingarmenn, hvaða verðmæti, verðmæti 11 manna í Orkuveitunni eða verðmæti almennings. Þið eruð, eins og kratar eru jafnan um allan heim bæði nú og þegar þeir fyrst birtust í sögunni, svikarar, heiglar og bestu vinir auðvaldsins. En fyrir hvern vaxa eiginlega verðmætin? Fyrir venjulegt fólk eða fyrir þá útvöldu sem Vilhjálmur og Björn Ingi hafa tekið að sér? Ætli við sjáum þá kumpána ekki spígspora á Viðey á morgun þegar megadívan Yoko Ono tendrar blysin sín til heiðurs einhvers steindaðs poppara frá Englandi.  So what...

Viðfangsefnin hérlendis eru af allt öðrum toga, það er skömm að ekkert sé gert í málum eldra fólks, öryrkja og barna, dómstólarnir eru úti að flækjast í einhverri þvælu og nota ekki refsiramma í alvarlegum kynferðisbrotum - þetta er bananalýðveldi eins og Eisenhower og aðrir repúblikanar vildu hafa það. Húrra Ísland!!

 


Menningarránið mikla

Norðmenn áttu sér ekki skrifmál á öndverðri 19. öld en þá var þjóðernishreyfingunni mjög að vaxa fylgi hjá frændum okkar í þvísa landi, enda Danir farnir halloka fyrir Þjóðverjum og efnahagskreppa í landinu. Góð ráð voru dýr en eins og lenska er í Noregi (og víðar) var ekki hægt að sameinast um neitt og því voru búin til tvö ritmál sem enn lifa í landinu, þótt ekki sé hægt að tala um sérlega velgengni. Annað var dönskuskotin norska, sem hlotið hefur nafnið bókmál, af því að allir helstu rithöfundar Noregs- frá Ibsen og Kielland til Hamsuns - skrifuðu á dönsku. Ritmálið var einfaldlega fært frá dönsku til mállýskunnar sem töluð er í Osló. Hitt málið var nýnorska, sem fræðimaðurinn Ivar Aasen stóð að baki, en það var samantekt sveitamáls um Vestur Noreg og innri héruð Austur Noregs. Halldór Laxness kallaði þetta tungumál "illgirnislega eftiröpun íslenskunnar" og segja sumir að hann hafi látið þau orð falla í sjónvarpsviðtali vegna þess að Ivar Eskeland, fyrrum forstjóri Norræna Hússins í Reykjavík, snaraði sumum bókum hans á nýnorsku og nóbelsskáldinu fannst hann hlunnfarinn vegna þess að svo fáir keyptu, og lásu, bækur hans.

Hvað sem því líður er nýnorskan eins konar esperanto eða volapuk, enginn talar þetta mál og það er aðeins til á bókum fræðimanna og ofstækisfullra sveitalóma. Þessi tvö tungumál, auk samísku, kvensku og finnsku, eru ærið kostnaðarsöm norsku þjóðfélagi, en ágóðinn af þessum málatilbúningi var ekki eingöngu málfræðilegur, heldur ætlaður til að skapa þjóð í landi sem hafði búið við myrkur danskrar stjórnar í 400 ár. Á þessum tíma var almennt talið að þrennt þyrfti til að geta kallast þjóð: ein tunga, eitt afmarkað land og ein samfelld og sérkennandi menning. Landið var afmarkað af Kilinum milli Noregs og Svíþjóðar, þótt deilur hafi risið um Grænland við Dani og síðar Smuguna við Íslendinga, þó ekki sé talað um gráa svæðið kringum Svalbarð þar sem Rússar deila við Norðmenn. Tungumálin urðu tvö, þó bæði séu kölluð norska, en samfelld menning og menningararfur var aftur á móti skelfilegt vandmál. Norðmenn eiga nefnilega bara fjögur hrifsi, þverhandar stór, frá 13. öld, sem sýna menningu þeirra þótt stafkirkjur og alls kyns kirkjumunir séu alls staðar. En hvar var menningararfleifðin? Hvert sótti hið norska fólk rætur sínar, ritmál og tungu? Alla vega ekki í Noregi. Þá var brugðið til þess ráðs að gera Íslendingasögurnar norskar, Snorri Sturluson (ævinlega nefndur Snorre Sturlason) varð norskur rithöfundur og Ísland var tekið inn í eyjaklasa Noregs, sem ysti útnári skerjagarðsins. Þetta er enn kennt í grunnskólum og framhaldsskólum Noregs.

Það er illt til þess að vita að bráðhuga fræðimenn 19. aldar, eins og Norðmaðurinn Magnus Olsen og Íslendingurinn Guðbrandur Vigfússon, fóru yfir sögurnar með skáldaleyfi og túlkuðu vísur og annað eftir eigin dyntum - sumt var rangt, sumt illlesanlegt en allt var skýrt -  hér er sannarlega eitthvað fyrir nútíma sagnfræðinga að fást við. Fyrir málfræðingana, sem enn standa á því föstum fótum að til hafi verið upprunalegt norrænt mál, sem sé eins konar formóðir allra norrænna mál nema finnsku, samísku og kvensku, má kannski velta því fyrir sér að íslenskan ber svo mörg sérkenni að hún hlýtur að vera af öðrum meiði en hin norðurlandamálin, þótt hún sé náttúrulega skyld þeim. Af hverju er íslenskan ein mála um að vera án óákveðins greinis? Ég skora á málfræðinga að skýra það út.

Við erum lítil þjóð og vorum undir ægivaldi Dana þegar þetta menningarrán fór fram. Er ekki kominn tími til að leiðrétta málin? Svo geta Guðbrandur Vigfússon, Sigurður Norðdal og Kristján Eldjárn bara sofið undir grænni torfu. Þeir gerðu áreiðanlega sitt besta en það er bara ekki nógu gott. 


Tími hinna viljugu er liðinn

Ingibjörg Sólrún ber sér á brjóst yfir að hafa kallað einn íslenskan karlmann heim frá Írak og þar með hafa Bandaríkjamenn og hinar viljugu þjóðir sennilega tapað stríðinu gegn - já, gegn hverjum er eiginlega verið að berjast núna? Er ekki búið að hengja Saddam og hans nánustu vopnabræður (sem Ameríkanarnir vopnuðuog dældu dollurum í á sínum tíma)? Er verið að berjast gegn fólkinu í Írak, þar sem 4 milljónir manna eru á flótta og hundrað manns deyja á dag fyrir olíu og völd Ameríkana? Ég skil á vissan hátt að Ósómakindin Bin Laden njóti stuðnings og styrks, hver annar þorir að mæta veldi og ofbeldi Ameríkananna á þeim slóðum? Hann er Jón Sigurðsson allra Araba, frelsishetjan og maðurinn sem segir: "Málstaðurinn er allt, markmiðið er frelsi". Svo hefur hann náttúrulega rangt fyrir sér eins og öll önnur svokölluð mikilmenni í sögunni, frá Alexandri mikla til Bush hins heimska. En allir hafa rétt á að berjast fyrir frelsi sínu, það gildir jafnt um Íraka og aðrar þjóðir. Við höfum sjálf upplifað baráttuna fyrir frelsi frá dönskum yfirgangi, við ættum að skilja þetta þó við séum ekki sammála markmiðum al Qaeda. Þeir um það. Við höfum ekkert í erlendum stríðum að gera og ættum að hugsa meira um það sem næst okkur er. Ísland hefur ekkert að gera í Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, það er villuspor kratanna sem við eigum ekki að fylgja. Þar eru bara teknar ákvarðanir um að senda hermenn hingað og þangað og hvað á Ísland að vera að skipta sér að því, mér er bara spurn.

Ísland er dálítið banana-lýðveldi, sem sést af því að tveir elliærir karlar, Davíð og Halldór, taka það að sér að veifa skottinu fyrir ofurríkinu í vestri og gerast viljugir aðilar að hernaðaráætlunum heimskasta manns veraldar, George Bush. Það segir sitt um hugarheim og vit þessarra tveggja manna. Þeir eig eftir að fá það óþvegið í sögunni, svo mikið er víst. En þá eru þeir náttúrulega komnir undan allri ábyrgð og sennilega undir græna torfu líka. Ingibjörg Sólrún hins vegar er dæmigerður krati, hún fer aldrei alla leið, bara nógu langt til að sanka að sér atkvæðum, ef einhver töggur hefði verið í henni hefði hún líka kallað "friðargæslusveitirnar", sem eiginlega eru bara að kaupa teppi og gersemar afghanska fólksins fyrir yfirmenn sína í utanríkisráðuneytinu, heim til Íslands og hætt allri hernaðarþátttöku. Ég kýs alla vega ekki Samfylkinguna, eða Stríðsfylkinguna, eins og hún bæri nafn með réttu.


Hrafnar Flóka og sænski sjóherinn

Ég hitti einu sinni Svía sem hélt því fram að sænski sjóherinn hefði fundið Ísland. Ég var að vinna í Volvo-verksmiðjunum á Torslanda í Gautaborg þegar þetta var og innti manninn nánar eftir hvað hann væri að tala um. Hann hafði lært þetta í sænskum skóla af sænskum pedagógum svo hann var viss í sinni sök. Kannski var hann að tala um Garðar Svavarsson og Garðarshólma, kannski var hann bara að rugla einhverju saman. Að því er ég veit best hefur sænski sjóherinn unnið fá afrek, ef undanskilið er mega-skipið Gustaf Vasa, sem sökk hálftíma eftir að því var hleypt af stokkunum í höfn Stokkhólms á sínum tíma. Reyndar er búið að hífa það á land núna, en það er önnur saga. Sænski sjóherinn fann alla vega ekki Ísland og nánast ekki neitt ef gáð er að.

Það var hins vegar Hrafna-Flóki sem villtist um höfin með hröfnunum sínum sem hefur fengið kreditt fyrir þetta afrek. Sagan um það er þó all undarleg og greinilega ekki rökrétt hugsuð frá hendi höfundar. En þar er greint frá því að Flóki hafði hrafna þrjá og sleppti einum þegar út á haf var komið og flaug sá í austur og heim til Noregs. Flóki hélt þá áfram í vesturátt að leita fyrirheitna landsins og nokkrum dögum síðar sleppti hann öðrum hrafni og sá flaug í nokkra hringi en settist svo á möstur skipsins og sá ekkert land. Þeim þriðja var svo sleppt, samkvæmt sögunni, nokkrum dögum seinna og flaug hann þá rakleiðis til Íslands og er sennilega ættfaðir íslenskra hrafna. En mér er spurn, hvað varð um hrafn númer tvö? Sat hann (eða kannski hún) á mastrinu, matarlaus og úrvinda, og flaug ekki með maka sínum í vestur? Hér er greinilega um að ræða sögu sem tekur mið af hinni heilögu þrenningu, alltaf þurfa að vera þrír í slíkum sögum, en Hrafna-Flóka hefði nægt að hafa með sér tvo hrafna til að framkvæma siglinguna, svo grannt sé skoðað. Það er ekki síður athyglisvert að í Hauksbók stendur: "í þann tíð höfðu norrænir farmenn engir leiðarstein", sem þýðir að áttavitinn var ekki kominn til sögunnar þegar þetta var, í lok níundu aldar. En hvernig stendur á því að Íslendingar vissu um leiðarstein, eða áttavita, á undan sæförum Arabíu, Indlands og Yemen? Hauksbók er nefnilega skrifuð svo snemma að áttavitans, eða leiðarsteinsins, er getið þar fyrr en í arabískum heimildum og þá er kannski loku fyrir það skotið að áttavitinn hafi farið kryddleiðina frá Kína til Evrópu. Kannski hefur hann ferðast yfir Síberíu, því vitað er að áttavitinn var fyrst nýttur í auðnum Góbí-eyðimarkarinnar á jöðrum Mongóliu. Sagan er merkileg og leyndarmál hennar verða kannski aldrei leyst, en það er samt hollt að spyrja.


Hvað er hæstiréttur að gera?

Það er alveg ótrúlegt að refsiramminn (16 ár) í nauðgunarmálum skuli ekki vera notaður til betri hluta en að hvetja til fleiri nauðgana. Sennilega er enginn glæpur eins auðmýkjandi og sálardrepandi og nauðgun, en dómarar hæstaréttar eru ekki á einu máli með mér og obbanum af þjóðinni. Hrottaleg nauðgun er í þeirra augum spurning um að fylgja einhverju fordæmi frá löngu liðnum árum í stað þess að setja fordæmi fyrir komandi ár. Ætlum við að lifa við að konum og börnum sé misþyrmt á grófasta hátt án þess að refsingum sé beitt? Á ekki að horfa til framtíðarinnar og reyna að stemma stigu við þessum hræðilegu glæpum?

Ég var meðdómari í Noregi í tuttugu ár og fékk komið því áleiðis að barnaníðingar sluppu ekki með eins árs dóm, enda kominn tími til. Refsingin fyrir nauðgun og barnaníð var hert og refsiramminn notaður eins og samfélagið ætlast til. Það er ákveðin óvirðing við konur að nauðgarar og ofbeldismenn sleppi með væga dóma fyrir illmennsku sína, samfélagið verður að bregðast við og það hart og lengi. Það eru mannréttindi að fá að lifa óáreitt og án ótta, þó að flest af nauðgunarmálum séu eftirköst eða rifrildi náinna manna. Ég sé í hendi mér að einhverjir íhaldsræflar sitji í hæstarétti og sé á vissan hátt að vernda sinn eiginn rétt til að berja konuna sína án þess að fá refsingu fyrir.

Íslendingar segjast vera hamingjusamasta þjóð heims, en er það hamingja að eiga sér ekki einu sinni skjólstað á sínu eigin heimili eða meðal sinna nánustu? Mér er spurn. Hvað er hæstiréttur eiginlega að gera? Hvetja til ofbeldis og nauðgana eða horfa milli fingranna með hrottum og ógæfumönnum sem drepið hafa sálir og framtíð barna og kvenna.

Dómarar hæstarétts fengu væntanlega ekki vægan dóm ef þeir væru færðir fyrir dómstól fólksins,  ég er viss um að þá væri refsiramminn notaður til hins ýtrasta. Að auki hefur þessi mikilvæga stofnun lýðræðisins misst traust almennings og nóg var nú fyrr. Við stöndum frammi fyrir því að hinar þrjár stoðir lýðræðisins - löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið - eru að verða eins konar fjandmenn fólksins og það er slæmt.

Næsta skipti sem hæstiréttur finnur upp á því að létta dóma héraðsdóms í slíkum málum finnst mér ástæða til að láta þessa "herra" vita hvað almúginn hugsar, og það með pompi og prakt, svo lítið sé sagt. Hórur voru grýttar í Miðausturlöndum og eru það kannski enn, en kannski verða dómarar hæstaréttar fyrir einhverju grjótkasti í framtíðinni alla vega ef þeir haga sér svona. Fuss og svei.


Ofbeldisátak í miðborginni

Það er glæsilegt að löggan sé á varðbergi gegn fólki sem pissar úti í miðborg Reykjavíkur og beitir þá meira að segja hörku. Það er líka glæsilegt að dyraverðir berji á menntaskólanemum og hvetji til ofbeldis og hörku. En þá vaknar spurningin hvort ekki sé nóg af almenningsklósettum til þess að menn geti gengið örna sinna og látið vera að brjóta lögreglusamþykktir borgarinnar vegna sprengs um dimmar og votar nætur. Að berja, sekta og fangelsa fólk fyrir að losa blöðruna í borg sem ekki stenst kröfur alþjóðasamfélagsins er einhvern veginn öfugt, kannski lögreglumenn hefðu gert sína vinnu betur við að byggja almenningsklósett í stað þess að vera að sveifla kylfum sínum og draga upp handjárn og setjast ofan á unglinga sem brátt er í brók. Ég var að koma frá Asíu og þar voru almenningsklósett um allar borgir, það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað í þessum málum annað en að beita handjárnum og kylfum.

Nú veit ég vel að miðborgin í Reykjavík er hættulegri en miðborgir stærstu borga heims og er ekki á móti því að þar fari fram löggæsla, en þetta átak (80 manns handteknir á einni helgi...) er kannski valdasýning sem er óþörf. En húrra fyrir löggunni, húrra fyrir Birni Bjarnarsyni og öllum sem vinna sem blýantsnagarar á lögreglustöðvum og í dómsmálaráðuneytinu.

Ég var einn mánuð í Napólí, þar sem senda þurfti inn fallhlífahermenn frá Norður-Ítalíu til þess að stoppa ofbeldið og vesenið á götum borgarinnar, en Reykjavík er langt, langt frá því að vera á sama plani. Hér er jafn friðsamlegt, eða ófriðsamlegt, og verið hefur verið síðan 1960, en löggan er orðin harðhentari. Setjum Geir Jón og kompaní í að byggja almenningsklósett heldur en að láta þá berja á samborgurum okkar.

Það er allt í lagi að hafa löggæslu en svona átak er ofbeldi yfirvalda og ekki ásættanlegt.

Kristján Guðlaugsson 


Næsta síða »

Um bloggið

KristjánG

Höfundur

Kristján L Guðlaugsson
Kristján L Guðlaugsson
Aldamótamaður með gikt, blaðamaður,sagnfræðingur og sínólóg með próf á lyftara. Fæddur á fyrri hluta síðustu aldar og hjarað síðan. Skáld, trúbador og meinhorn.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...p1020030
  • Leirkarlar og Huld
  • Reiðhjólaviðgerðarverkstæði
  • Hótel Saga
  • Ár svínsins eða gríssins

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband